Þrettándagleði 2007

ÞRETTÁNDINN, 6. janúar ár hvert, hefur alltaf verið hátíðisdagur í minni fjölskyldu, ekki eingöngu vegna þess að þá kveðjum við jólin formlega, heldur er þetta afmælisdagur systur minnar og upp á hann hefur alltaf verið haldið með pomp og prakt. Það voru því einstaklega ánægjulegar fréttir sem bárust snemma morguns hinn 6. janúar í ár. Úrskurður umhverfisráðherra Jónínu Bjartmarz í kæru vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um vegagerð á Vestfjarðavegi nr. 60 lá fyrir. Þessa úrskurðar höfum við íbúar Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps beðið síðan í maí 2006.

Í kjölfar þessa úrskurðar hefur skapast umræða sem mér hefur fundist vera helst til einsleit og því ástæða til að vekja athygli fólks á því að mikið vatn hefur runnið til sjávar fram að þeim degi er úrskurður lá fyrir. Allt frá árinu 2000 hafa forsvarsmenn sveitarfélaganna Vesturbyggðar, Reykhóla- og Tálknafjarðarhrepps, staðið saman sem einn maður í þessu máli, þvert á allar pólitískar línur.

Í bréfi til samgönguráðherra og Alþingis í apríl árið 2000 voru sett fram fjögur skref sem brýnt þótti að stíga til þess að tryggja framtíð sveitarfélaganna. Þessi skref voru:

1. Vegur um Bröttubrekku.

2. Vegur um Klettsháls frá Vattarnesi að Múla í Kollafirði.

3. Að Vestfjarðavegur milli Brjánslækjar í Vesturbyggð og Bjarkalundar í Reykhólahreppi verði settur á snjómokstursáætlun þrjá daga í viku.

4. Að unnið verði að rannsóknum á mögulegum vegstæðum frá Skálanesi að gatnamótum Vestfjarðavegar og Reykhólasveitarvegar, þ.m.t. jarðgöngum undir Þorskafjörð.

Hvernig er staðan í dag?

1. Uppbyggður vegur um Bröttubrekku.

2. Uppbyggður vegur um Klettsháls.

3. Snjómokstur sjö daga vikunnar milli Brjánslækjar og Bjarkalundar.

4. Strax í upphafi bentu sveitarfélögin á leið sem þau með greinargerð bentu á að væri umhverfisvænsta leiðin, þ.e. jarðgöng undir Þorskafjörð frá Stað á Reykjanesi í Skálanes. Rökin voru stytting vegar og þéttbýlið á Reykhólum myndi færast í þjóðbraut, lagðir af tveir fjallvegir, komist hjá því að þvera þrjá firði og um leið raska fallegu landi. Þessari tillögu var hafnað sökum kostnaðar.

Þá sneru sveitarfélögin sér að leið B, sem er láglendisvegur og þverar Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð. Hófst þá langt ferli, allt frá því að fyrstu drög að tillögu að matsáætlun vegna umhverfismats lágu fyrir og þar til Vegagerðin skilaði inn matsskýrslu til Skipulagsstofnunar vegna veglagningar á þessari leið. Það er mjög mikilvægt í þessu sambandi að fólk geri sér grein fyrir að eftir að Vegagerðin skilar inn matsskýrslu er útilokað að breyta valkostum á þessari leið og því allt tal um jarðgöng eða hvað annað, ekki inni í myndinni.

Það var því mikið fagnaðarefni er samgönguráðherra Sturla Böðvarsson tilkynnti á fundi á Patreksfirði 8. febrúar 2005 að leið B yrði sá valkostur sem Vegagerðin myndi setja á oddinn á þessari leið. Jafnframt lýsti samgönguráðherra því yfir að hann myndi gera allt það sem í hans valdi stæði til þess að þessi leið yrði að veruleika.

Með þessari yfirlýsingu gátu íbúar og forsvarsmenn sveitarfélaganna strikað út fjórða og síðasta töluliðinn í bréfi sínu frá því í apríl árið 2000.

Úrskurður umhverfisráðherra Jónínu Bjartmarz er vel rökstuddur og ítarlegur. Í honum felst að við sem einstaklingar, menn, atvinnulíf, myndum samfélög sem eru mikilvæg umhverfi okkar. Enda er ég ekki í nokkrum vafa um að ef umhverfisráðherra hefði staðfest úrskurð Skipulagsstofnunar hefði það haft umtalsverð umhverfisáhrif á sunnanverðum Vestfjörðum, byggð hefði nánast lagst af.

Ég er alin upp við það að ekkert ávinnist í þessum heimi nema maður leggi sig fram og einnig var mér uppálagt að þakka og hrósa fólki fyrir vel unnin störf. Því vil ég þakka öllum þeim sem að þessu máli hafa komið, fyrrverandi og núverandi forsvarsmönnum sveitarfélaganna, íbúum og síðast en ekki síst samgönguráðherra, þingmönnum Norðvesturkjördæmis, sem og umhverfisráðherra fyrir vel rökstuddan úrskurð. – Gleðilegt nýtt ár.

Höfundur er oddviti og framkvæmdastjóri Tálknafjarðarhrepps. Formaður samráðsnefndar sveitarfélaganna Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps.


Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband